María Ellingsen er fædd í Reykjavík 22.janúar 1964 og er af íslensku, færeysku og norsku bergi brotin. Hún talar íslensku, færeysku, dönsku, ensku og þýsku.
Hún fór snemma að leika á sviði og í kvikmyndum og hélt til Bandaríkjanna 20 ára gömul til að nema leiklist. Hún lauk BA gráðu frá The Experimental Theater Wing í New York Háskólanum 1988. Sú leiklistaraðferð sem var kennd við ETW byggði mikið á líkamlegri tjáningu, rödd og spuna í anda Grotowskis, sem heimsótti deildina og leiddi leiksmiðjur. Nemendur lærðu að frumsemja verk með Devised theater aðferðinni þar sem uppsprettan er orð, hlutur eða þema. Mikil áhersla var lögð á dans í anda Merce Cunningham, Mary Overlie kenndi Viewpoints, raddþjálfun var í anda Roy Hart og Avant garde leikstjórar á borð við Robert Wilson, Richard Forman og Ann Bogart voru meðal þeirra sem leikstýrðu nemendaleikhúsinu. Á sama tíma þjálfaði María sig í kvikmyndaleik í samstarfi við Kvikmyndadeild New York Háskóla og hafði við útskrift leikið í ótal stutttmyndum auk tveggja íslenskra kvikmynda í fullri lengd.
Við heimkomuna var hennar fyrsta hlutverk á leiksviði í Þjóðleikhúsinu og meðal hlutverka þar eru; Cecile í Hættuleg kynni og Miranda í Ofviðrinu. Hún fór svo aftur til New York til að bæta við sig leikhúsreynslu en tilboð um að leika hlutverk hinnar austurþýsku Katarinu í sjónvarpsþáttunum Santa Barbara bauð henni uppá tækifæri til að reyna fyrir sér í Hollywood. Þar var hún fyrst við upptökur á 170 þáttum seríunnar og síðan tóku hlutverk í bíómyndum við; m.a. New Age hjá Warner Brothers og Mighty Ducks 2 hjá Disney og Deadly Currents hjá Showtime.
Það var íslenska kvikmyndin Agnes sem kallaði hana heim til Íslands á ný en í henni lék hún titilhlutverkið, vinnukonuna sem drap ótrúa elskhugann sinn og týndi fyrir það eigin lífi á höggstökknum. María var valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Verona, fyrir Agnesi. Síðan hafa hlutverkin verið mörg í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum á Íslandi og erlendis.
Annað Svið er sjálfstætt leikhús sem María geymir í vasanum og tekur fram þegar gott leikrit knýr hana til framkvæmda. Þar á meðal hafa verið Sjúk í ást eftir Sam Shepard, Beðið eftir Beckett, Svanurinn eftir Elisabeth Egloff þar sem hún lék hjúkrunarkonuna Dóru sem verður ástfangin af svani og Salka Valka – ástarsaga í samstarfi við Hafnafjarðarleikhúsið þar sem hún lék Sölku. Þá kom Dans/leikhúsverkið Úlfhamssaga sem hlaut 7 tilnefningar til Grímuverðlauna. Þar steig María fram sem leikstjóri í fyrsta sinn og fór fyrir hópi listamanna við að smíða verkið upp úr íslenskum fornaldarrímum. Næst smíðaði María leikverkið MammaMamma í samstarfi við Charlottu Böving og leikhópinn en það er byggt á samtölum við konur um það að vera mamma og eiga mömmu. Síðan tók við Ferðalag Fönixins – um listina að deyja og fæðast á ný sem frumsýnt var á Listahátíð í Reykjavík 2011, og var dansleikhúskonsert í anda Úlfhamssögu. Fönixinn sló í gegn og ferðaðist víða um Norðurlönd í kjölfarið. Næsta uppsetning leikfélagsins var svo Enginn hittir einhvern eftir danska verðlaunaskáldið Peter Asmussen sem var frumsýnt í mars 2016 í Norræna Húsinu. En þau verk sem María er nú með í smíðum eru Augun mín sem fjallar um þrjár skáldkonur sem í morgunsári 1900 aldar takast á við ástarsorg hver á sinn hátt og var fyrsta útgáfa verksins frumsýnt við New York Háskóla en íslensk útgáfa býður uppsetningar. Artic Women verk um konur á Norðurslóðum og áhrif náttúrunnar á sálina unnið í samstarfi við Juni Dahr. Fyrsta útgáfan þess Svalbard Movements var frumsýnd á bókmenntahátíðinni í Longyearbyen í spetember 2019 en fleiri útgáfur eru í farvatninu. Síðast en ekki síst vinnur María að verkinu Trú, von og kærleikur sjónvarpsþáttaröð um ævi Haralds Níelssonar sem var einn mesti áhrifamaður í andlegum málum Íslendinga á síðustu öld.